Skip to main content

d20 á íslensku

Hér getur að líta fimmtu útgáfu d20 kerfisins á íslensku, fyrir hópa sem vilja spila spunaspil á ástkæra ylhýra.

Hvað má finna hér?

d20 kerfisvísunin (e. d20 system reference document) sem gefin hefur verið út með opnu leyfi er þýdd úr ensku. Lokamarkmið þessa verkefnis er að þýða alla kerfisvísunina.

Athugið þó að kerfisvísunin er ekki nægileg til að hefja leik ein og sér. d20 kerfið sem hér er þýtt er byggt á fimmtu útgáfu Dungeons & Dragons hlutverkaspilsins, sem er í eigu fyrirtækisins Wizards of the Coast. Nokkrum lykilhlutum þess spils, t.d. reglum um persónusköpun, er vísvitandi sleppt úr kerfisvísuninni. Bækurnar, sem ekki hafa verið þýddar á íslensku, eru enn nauðsynlegar til að fá heildstæða mynd af reglunum. Sjá einnig OGL kerfisleyfið.

Hér er markmiðið því ekki að setja fram sjálfstætt hlutverkaspil, heldur að hjálpa reyndum íslenskum spunaspilurum að halda spil sín á íslensku með því að setja fram heildstæða þýðingu á grunnhugtökum.

Hvaðan koma þýðingarnar?

Uppruna flestra hugtakanna má rekja til Orðasafns íslenskra spunaspilara, töfluskjals þar sem þýðingum á spunaspilstengdum orðum hefur verið safnað frá íslenska spunaspilssamfélaginu um árabil.

Eðli málsins samkvæmt leiðir hópsöfnun sem slík til þess að margar góðar þýðingar verða til á flestum hugtökum. Hér hefur "ritstjóri" verkefnisins handvalið þýðingar úr sarpinum.

Hver er staða verkefnisins?

Verkefninu er langt því frá lokið. Því er sinnt sem áhugamáli.

Hvernig get ég lagt hönd á plóg?

Þýðingarnar má finna á einföldu, tölvutæku Markdown-sniði á Github síðu verkefnisins, þar sem þeim má breyta að vild. Viðbætur og lagfæringar eru vel þegnar.

Eiríkur Ernir Þorsteinsson sér um vefinn, hægt er að hafa samband á e.ernir@gmail.com.