Skáld
(e. Bard)
Heilsa
Heilsuteningur: 1d8 fyrir hvert skáldsstig
Heilsa á 1. stigi: 8 + hreystibreyta þín
Heilsa á hærri stigum: 1d8 (eða 5) + hreystibreyta þín fyrir hvert skáldsstig eftir hið fyrsta.
Hæfni
Vopn: Einföld vopn, handlásbogar, langsverð, lagsverð (e. rapier), stuttsverð
Verjur: Léttar brynjur
Áhöld: Þrjú hljóðfæri að eigin vali
Varnarköst: Lipurð, þokki
Kunnátta: Þrjár kunnáttur að eigin vali.
Útbúnaður
Þú byrjar með eftirfarandi útbúnað, til viðbótar við þann sem kemur frá bakgrunninum:
- (a) lagsverð, (b) langsverð eða (c) einfalt vopn að eigin vali
- (a) diplómatapakka eða (b) skemmtikraftspakka
- (a) lútu eða (b) annað hljóðfæri
- Leðurbrynju og rýting
Tafla: Skáldið
Stig | Hæfnib. | Einkenni | Brögð | Galdraþekking/hólf | 1. | 2. | 3. | 4. | 5. | 6. | 7. | 8. | 9. |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1. | +2 | Galdramáttur, innblástur (d6) | 2 | 4 | 2 | - | - | - | - | - | - | - | - |
2. | +2 | Þúsundþjalasmiður, heilunarsöngur (d6) | 2 | 5 | 3 | - | - | - | - | - | - | - | - |
3. | +2 | Listaskóli, sérhæfing | 2 | 6 | 4 | 2 | - | - | - | - | - | - | - |
4. | +2 | Hæfileikaaukning | 3 | 7 | 4 | 3 | - | - | - | - | - | - | - |
5. | +3 | Innblástur (d8), ritstífluleysi | 3 | 8 | 4 | 3 | 2 | - | - | - | - | - | - |
6. | +3 | Mótspilun, skólaeinkenni | 3 | 9 | 4 | 3 | 3 | - | - | - | - | - | - |
7. | +3 | - | 3 | 10 | 4 | 3 | 3 | 1 | - | - | - | - | - |
8. | +3 | Hæfileikaaukning | 3 | 11 | 4 | 3 | 3 | 2 | - | - | - | - | - |
9. | +4 | Heilunarsöngur (d8) | 3 | 12 | 4 | 3 | 3 | 3 | 1 | - | - | - | - |
10. | +4 | Innblástur (d10) | 3 | 14 | 4 | 3 | 3 | 3 | 2 | - | - | - | - |
11. | +4 | - | 4 | 15 | 4 | 3 | 3 | 3 | 2 | 1 | - | - | - |
12. | +4 | Hæfileikaaukning | 4 | 15 | 4 | 3 | 3 | 3 | 2 | 1 | - | - | - |
13. | +5 | Heilunarsöngur (d10) | 4 | 16 | 4 | 3 | 3 | 3 | 2 | 1 | 1 | - | - |
14. | +5 | Leyndardómar galdranna, Skólaeinkenni | 4 | 18 | 4 | 3 | 3 | 3 | 2 | 1 | 1 | - | - |
15. | +5 | Innblástur (d12) | 4 | 19 | 4 | 3 | 3 | 3 | 2 | 1 | 1 | 1 | - |
16. | +5 | Hæfileikaaukning | 4 | 19 | 4 | 3 | 3 | 3 | 2 | 1 | 1 | 1 | - |
17. | +6 | Heilunarsöngur (d12) | 4 | 20 | 4 | 3 | 3 | 3 | 2 | 1 | 1 | 1 | 1 |
18. | +6 | Leyndardómar galdranna | 4 | 22 | 4 | 3 | 3 | 3 | 3 | 1 | 1 | 1 | 1 |
19. | +6 | Hæfileikaaukning | 4 | 22 | 4 | 3 | 3 | 3 | 3 | 2 | 1 | 1 | 1 |
20. | +6 | Skáldagáfa | 4 | 22 | 4 | 3 | 3 | 3 | 3 | 2 | 2 | 1 | 1 |
Einkenni
Sem skáld hefurðu eftirfarandi einkenni.
Galdramáttur
Alheimurinn sveiflast í takt við tónlist þína. Galdrar eru hluti af list þinni, og þú getur nýtt hana við ýmsar aðstæður.
Galdrabrögð
Þú kannt tvö galdrabrögð að eigin vali af galdralista skáldsins. Þú lærir fleiri brögð eftir því sem þú nærð hærri stigum skáldsins, eins og sjá má á skáldstöflunni.
Galdrahólf
Skáldstaflan sýnir hversu mörg galdrahólf þú hefur til að beita göldrum í 1. hring og ofar. Til að beita slíkum galdri þarftu að eyða galdrahólfi af þeim hring eða æðri. Þú endurheimtir öll galdrahólf sem þú hefur eytt þegar þú hvílist um langa hríð. Ef þú til dæmis kannt 1. hrings galdurinn sárabót (e. cure wounds) og hefur 1. og 2. hrings galdrahólf til ráðstöfunar geturðu beitt sárabót með hvoru hólfinu sem er.
Galdraþekking af 1. hring og ofar
Þú kannt fjóra 1. hrings galdra að eigin vali af skáldsgaldralistanum. Dálkurinn "fjöldi galdra" á skáldstöflunni sýnir hvenær þú lærir fleiri galdra að eigin vali. Þú þarft að hafa galdrahólf í þeim hring sem galdurinn er til að geta lært hann, galdrahólfin má sjá á töflunni. Þegar þú nærð þriðja stigi skáldsins til geturðu til dæmis lært einn nýjan 1. eða 2. hrings galdur.
Einnig, í hvert skipti sem þú nærð nýju stigi skáldsins máttu velja einn af skáldsgöldrunum sem þú kannt og skipta honum út fyrir annan galdur á skáldsgaldralistanum. Þú þarft líka að hafa galdrahólf í hring nýja galdursins til að geta lært hann.
Galdrahæfileiki
Galdrahæfileiki þinn fyrir skáldsgaldra er þokki. Galdrar þínir spretta úr því að þú hellir lífi þínu og sál í tónlist þína eða ræður. Þú notar þokka í hvert skipti sem galdur vísar til galdrahæfileika þíns. Þokki ákvarðar líka erfiðleikastig varnarkasta gegn skáldsgöldrum sem þú beitir og þegar þú þarft að gera með þeim árásarköst.
Erfiðleikastig varnarkasta gegn göldrum = hæfnibónus þinn + þokkabreyta þín
Árásarbreyta galdra = hæfnibónus þinn + þokkabreyta þín
Galdraathafnir
Þú getur beitt þeim skáldsgöldrum sem eru merktir (e. tagged) sem athöfn (e. ritual) sem athöfn.
Galdrafókus
Þú getur notað hljóðfæri sem fókus fyrir skáldsgaldra þína.
Innblástur skáldsins
Þú getur veitt öðrum innblástum með tónlist eða orðum. Til að gera svo notaðu aukaaðgerð á þinni umferð og velur eina veru aðra en þig sjálf(a/an/t) innan 18 metra sem getur heyrt í þér. Sú vera fær einn innblásturstening, sem er d6.
Einu sinni, innan næstu 10 mínútna, getur veran kastað teningnum og bætt niðurstöðunni við eitt hæfniskast, árásarkast eða varnarkast sem hún gerir. Veran getur beðið þar til hún sér niðurstöðu d20 kastsins, en hún þarf að ákveða áður en stjórnandi lýsir yfir niðurstöðu kastsins. Innblástursteningurinn eyðist við notkun. Hver vera getur aðeins haft einn innblásturstening í einu.
Nota má þennan hæfileika jafn oft og tölugildi þokkabreytu þinnar, að lágmarki einu sinni. Þú endurheimtir notkanirnar þegar þú hefur hvílst um langa hríð.
Innblástursteningurinn breytist þegar hærri stigum skáldsins er náð. Teningurinn verður d8 á 5. stigi, d10 á 10. stigi og d12 á 15. stigi.
Þúsundþjalasmiður
Þegar 2. stigi er náð geturðu bætt hálfum hæfnibónusnum þínum, námundað niður, á hvaða hæfniskast sem er þar sem hæfnibónusinn er ekki á nú þegar.
Heilunarsöngur
Á 2. stigi geturðu notað róandi tónlist eða yfirlestur til að að hressa við félaga þína meðan á stuttri hvíld stendur. Ef þú eða aðrar verur innan kallfæris sækja sér heilsu í fjörteninga (e. hit dice) fær hver þeirra 1d6 í heilsu til viðbótar.
Viðbótarheilsan breytist þegar hærri stigum er náð, 1d8 á 9. stigi, 1d10 á 13. stigi, og 1d12 á 17. stigi.
Listaskóli
Þegar 3. stigi er náð kafarðu dýpra í listir fyrir lengra komna, t.d. þær sem kenndar eru við Skóla Sagnaritunarinnar. Valið veitir þér aukaeinkenni á 6. og 14. stigi skáldsins.
Sérhæfing
Á 3. stigi skaltu velja tvær kunnáttur sem þú hefur hæfni í. Hæfnibónusinn þinn er tvöfaldaður í hvert skipti sem þú gerir hæfileikakast sem tengist þessum tveimur kunnáttum. Á 10. stigi velurðu tvær kunnáttur til viðbótar sem þessi hlunnindi eiga við.
Hæfileikaaukning
Þegar 4. stigi er náð, og aftur á 8., 12., 16. og 19. stigi, máttu auka einn af hæfileikum þínum um 2, eða tvo hæfileika um 1. Eins og alltaf er ekki hægt að auka hæfileika upp fyrir 20 með því að nota þetta einkenni.
Ritstífluleysi
Á 5. stigi endurheimtirðu allar notkanir á innblæstri skáldsins í hvert skipti sem þú hvílist um skamma eða langa hríð.
Mótspilun
Á 6. stigi geturðu notað tónlist eða magnþrungin orð til að trufla hughrif (e. mind-influencing effects). Með því að nota aðgerð geturðu hafið flutning sem endist þar til þú átt að gera næst. Á meðan flutningum stendur færð þú og bandamenn þínir innan 9 metra meðbyr á varnarköstum gegn ótta og heillunum. Verur þurfa að vera innan kallfæris til að fá þessi hlunnindi. Flutningnum lýkur ef þú missir meðvitund, ef þú ert þaggað(ur)/þögguð (e. silenced), eða ef þú hættir að eigin frumkvæði (þarfnast ekki aðgerðar).
Leyndardómar galdranna
Á 10. stigi hefurðu náð að ræna og rupla galdraþekkingu úr öllum áttum. Veldu tvo galdra af hvaða hetjugerðarlista sem er, þar með talið skáldalistanum. Galdurinn þarf að tilheyra hring sem þú hefur aðgang að, eins og sjá má að skáldatöflunni, eða vera galdrabragð.
Þú meðhöndlar þessa nýju galdra sem skáldsgaldra, þegar er gert ráð fyrir þeim í þeim fjölda galdra sem sýndur er á skáldatöflunni.
Þú lærir tvo galdra til viðbótar af hvaða hetjugerðarlista sem er á 14. stigi og aftur á 18. stigi.
Skáldagáfa
Á 20. stigi færðu eina notkun af innblástur skáldsins aftur þegar kastað er upp á snerpu þegar þú átt engar notkanir eftir.
Skóli Sagnaritunarinnar
Skáld sem kenna sig við skóla sagnaritunarinnar vita eitthvað um flest, þau safna fróðleiksmolum alls staðar af, hvort sem það er úr merkum fræðiritum eða gróusögum. Hvort sem áhorfendahópurinn er bændur á knæpu eða aðalsfólk við hirðina nota þessi skáld hæfileika sína til að vekja spurningar og auðga hugann. Þegar uppklöppunum lýkur gæti fólk efast um allt sem það taldi sig áður vita fyrir víst, hvort sem það er trú þeirra á prestastéttina eða hollusta þeirra við konunginn.
Þessi skáld eltast eingöngu við fegurð og sannleikann, ekki náð konunga eða guða. Aðalsmaður sem heldur slíku skáldi sér við hlið gerir það til að fá að heyra sannleikann, ekki það sem viðkomandi vill heyra.
Þau sem kenna sig við skólann safnast saman í kringum bókasöfn og jafnvel raunverulega skóla sem innihalda skólastofur og heimavistir til þess að deila fræðum sínum hvort með öðru. Þau hittast líka á hátíðum og ríkisviðburðum, þar sem þau fletta ofan af spillingu, afhjúpa lygar, og draga dár að sjálfumglöðum útsendurum yfirvaldsins.
Viðbótarhæfni
Þegar þú gengur til liðs við skóla sagnaritunarinnar á 3. stigi nærðu hæfni í þremur hæfileikum að eigin vali.
Orð sem særa
Á 3. stigi lærirðu einnig hvernig þú getur notað eigin vitsmuni til að afvegaleiða, ringla, og grafa undan sjálfstrausti annarra. Þgear vera innan sjónfæris innan 18 metra gerir árásarkast, hæfileikakast eða skaðakast geturðu notað viðbragð til að eyða einni notkun innblásturs skáldsins og kasta innblásturstening sem dregst frá kasti verunnar. Þú getur valið að nota þetta einkenni eftir að veran kastar, en áður en stjórnandi lýsir yfir niðurstöðum árásarinnar eða hæfileikakastsins og áður en skaðinn er skeður. Verur sem heyra ekki í þér eða eru ónæm fyrir því að vera heillaðar eru ónæmar fyrir þessum eiginleika.
Viðbótarleyndarmál
Á 6. stigi lærirðu tvo galdra að eigin vali af hvaða hetjugerðarlista sem er. Galdurinn þarf að tilheyra hring sem þú hefur aðgang að, eins og sjá má að skáldatöflunni, eða vera galdrabragð. Þú meðhöndlar þessa nýju galdra sem skáldsgaldra, en ekki er gert ráð fyrir þeim í þeim fjölda galdra sem sýndur er á skáldatöflunni.
Makalaus kunnátta
Þegar 14. stigi er náð geturðu eytt einni notkun innblásturs skáldsins þegar þú gerir hæfileikakast. Kastaðu innblásturstening og bættu tölunni við hæfileikakastið. Þú mátt velja að nota hæfileikann eftir að þú hefur kastað teningnum, en áður en stjórnandi hefur lýst yfir niðurstöðu kastsins.