Skip to main content

Hæfileikar

Sex hæfileikar (e. ability scores) lýsa líkamlegum og andlegum eiginleikum hverrar veru (e. creature) í stuttu máli.

  • Styrkur (e. strength) lýsir líkamlegu afli
  • Lipurð (e. dexterity) lýsir fimni
  • Hreysti (e. constitution) lýsir úthaldi
  • Greind (e. intelligence) lýsir rökhugsun og minni
  • Viska (e. wisdom) lýsir athyglisgáfum og innsæi
  • Þokki (e. charisma) lýsir styrk persónuleikans

Er persónan (e. character) vöðvastælt og fróð? Gædd snilligáfum og heillandi? Snögg og harðgerð? Hæfileikarnir skilgreina þessa eiginleika persónunnar - styrkleika hennar og veikleika.

Þrjú helstu köstin sem leikurinn felur í sér - hæfileikaköst (e. ability check), varnarköst (e. saving throw) og árásarköst (e. attack roll) byggja á þessum hæfileikum.

Hæfileikabreytur

Hæfileikum hverrar veru er lýst með heildartölu sem sýnir hve mikill hæfileikinn er. Talan lýsir ekki bara meðfæddri getu verunnar, heldur líka þjálfun hennar sem tengist allri notkun á hæfileikanum.

Meðalmanneskjan hefur hæfileika upp á 10 eða 11, en ævintýrafólk (e. adventurers) og skrýmsli (e. monsters) eru yfir meðallagi í flestum hæfileikum. Hæfileikar fólks ná sjaldnast yfir 18. Hæstu hæfileikar sem ævintýrafólk getur náð er 20, en skrýmsli og guðlegar verur geta náð upp í 30.

Út frá hverjum hæfileika er einnig reiknuð hæfileikabreyta (e. ability modifier). Sú breyta nær frá -5 (fyrir hæfileika upp á 1) til +10 (fyrir hæfileika upp á 30). Taflan hæfileikar og hæfileikabreytur sýnir hæfileikabreyturnar fyrir öll möguleg gildi á hæfileikum.

Til að reikna hæfileikabreytu án þess að nota töfluna má draga 10 frá hæfileikanum, deila útkomunni með 2 og námunda niður.

Þar sem hæfileikabreyturnar hafa áhrif á nær öll árásarköst, hæfileikaköst og varnarköst koma þær oftar við sögu í spilun en hæfileikarnir sjálfir.

Hæfileikar og hæfileikabreytur

HæfileikiHæfileikabreyta
1-5
2-3-4
4-5-3
6-7-2
8-9-1
10-11+0
12-13+1
14-15+2
16-17+3
18-19+4
20-21+5
22-23+6
24-25+7
26-27+8
28-29+9
30+10

Meðbyr og Mótbyr

Stundum tekur sérhæfileiki (e. special ability) eða galdur (e. spell) fram að þú hafir meðbyr (e. advantage) eða mótbyr (e. disadvantage) á hæfileikakasti, varnarkasti eða árásarkasti. Þegar slíkt á við, þá kastarðu einum d20 til viðbótar þegar þú kastar. Notaðu hærri teninginn ef þú hefur meðbyr, lægri teninginn ef þú hefur mótbyr. Til dæmis, ef þú hefur mótbyr og kastar 17 og 5, þá notarðu fimmuna. Ef þú ert hins vegar með meðbyr og kastar sömu tölum, þá notarðu sautjánuna.

Ef mörg atriði í aðstæðunum hafa áhrif á kastið sem öll veita þér annaðhvort meðbyr eða öll mótbyr kastarðu samt ekki meira en einum d20 til viðbótar. Til dæmis, ef skilyrðin eru svo hagstæð að tvö atriði veiti þér mótbyr kastarðu samt bara einum d20 til viðbótar.

Ef aðstæður veita þér bæði meðbyr og mótbyr er litið á sem svo að þú hafir hvorugt, og kastar eingöngu einum d20. Þetta á við jafnvel þó mörg atriði veiti þér mótbyr og einungis eitt meðbyr, og öfugt. Í slíkum aðstæðum hefurðu hvorki meðbyr né mótbyr.

Þegar þú hefur meðbyr eða mótbyr og eitthvað í leiknum leyfir þér að kasta d20 tening aftur, til dæmis heillastjörnuhæfileiki stuttlunga, þá færðu eingöngu að kasta öðrum teningnum aftur, að eigin vali. Til dæmis, ef stuttlungur hefur meðbyr eða mótbyr og kastar 1 og 13, þá gæti stuttlungurinn notað heillastjörnuhæfileikann til að kasta ásinum aftur.

Venjulega færðu meðbyr eða mótbyr vegna sérhæfileika, sérstakra athafna, eða galdra. Stjórnandi (e. game master) getur einnig ákveðið að aðstæður hafi áhrif á kastið til gagns eða ógagns, og veitt meðbyr eða mótbyr í samræmi við það.

Hæfnibónus

Persónur hafa hæfnibónus (e. proficiency bonus) sem bætt er við sum d20 köst. Bónusinn fer eftir því á hvaða stigi (e. level) persónan er. Skrýmsli hafa líka þennan bónus, sem er hluti af lýsingum (e. stat block) þeirra. Notkun bónussins er lýst í reglunum um hæfileikaköst, varnarköst og árásarköst.

Ekki er hægt að bæta bónusnum við sama kastið oftar en einu sinni. Til dæmis, ef tvær mismunandi reglur segja til um að þú megir bæta hæfnibónusnum þínum við viskuvarnarkast, þá bætirðu bónusnum samt bara einu sinni við kastið.

Stundum er hæfnibónusinn margfaldaður eða honum deilt áður en honum er bætt við kast. Til dæmis tvöfaldar sérhæfing þrjótsins (e. rogue) hæfnibónusinn á ákveðnum hæfileikaköstum. Ef aðstæður segja til um að hæfnibónusnum sé bætt við oftar en einu sinni við kast er hann eingöngu margfaldaður einu sinni og honum deilt einu sinni.

Ef aðstæður bjóða upp á að margfalda hæfnibónusinn sem bætist við kast sem ekki bjóða upp á að bæta bónusnum við til að byrja með færðu ekki að bæta bónusnum við kastið. Hæfnibónusinn fyrir slíkt kast er 0, og margföldun á 0 gefur ávallt 0. Til dæmis, sértu ekki með hæfni í sögukunnáttu (e. history skill), þá græðirðu ekkert á sérhæfileika sem leyfir þér að tvöfalda hæfnibónusinn sem þú bætir við greindarköst í sögu.

Almennt er hæfnibónusinn ekki margfaldaður á árásarköstum og varnarköstum. Sömu reglur eiga við ef sérhæfileiki leyfir slíkt.

Hæfileikaköst

Hæfileikaköst reyna á getu og þjálfun persóna og skrýmsla til að takast á við áskoranir. Stjórnandi krefst hæfileikakasts þegar persóna eða skrýmsli reynir eitthvað (annað en árás) sem gæti mistekist. Þegar útkoman er óviss ráða teningarnir för.

Í hverju hæfileikakasti ákveður stjórnandi hvaða hæfileiki á við verkefnið og hve erfitt það er, hinu síðarnefnda er lýst með erfiðleikastigi (e. difficulty class) þess. Því erfiðara sem verkefnið er, því hærra er erfiðleikastigið. Taflan yfir dæmigerð erfiðleikastig sýnir algengustu erfiðleikastigin.

Til að gera hæfileikakast skaltu kasta d20 og bæta við viðeigandi hæfileikabreytu. Bættu við bónusum og dragðu frá mínusa (e. penalties) líkt og við önnur d20 köst. Ef niðurstaðan er jöfn eða hærri en erfiðleikastigið er kastinu náð (e. is a success) og verunni tekst verkefnið. Annars misheppnast kastið (e. is a failure), sem þýðir að persónan eða skrýmslið kemst ekki áfram með verkefnið, eða kemst áfram með takmörkunum sem stjórnandi ákvarðar.

Dæmigerð erfiðleikastig

ErfiðleikiErfiðleikastig
Mjög létt5
Létt10
Meðal15
Erfitt20
Mjög erfitt25
Nær ómögulegt30